Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 429. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 556  —  429. mál.




Frumvarp til laga



um útflutningsaðstoð.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



I. KAFLI
Samráðsnefnd atvinnulífs og stjórnvalda um
utanríkisviðskipti og útflutningsaðstoð.

1. gr.

    Samráðsnefnd atvinnulífs og stjórnvalda um utanríkisviðskipti og útflutningsaðstoð sinnir stefnumótun og skilgreinir samvinnu- og átaksverkefni í útflutningsaðstoð og markaðssetningu. Hún er einnig vettvangur til samráðs og skoðanaskipta um markaðssetningu íslensks útflutnings á erlendum vettvangi. Nefndin fundar ekki sjaldnar en fjórum sinnum á ári og stýrir utanríkisráðherra tveimur fundanna.
    Í samráðsnefndinni sitja fulltrúar samtaka úr atvinnulífinu og stjórnvalda og stjórn Útflutningsráðs Íslands. Af hálfu atvinnulífsins sitja í nefndinni fulltrúar Samtaka atvinnulífsins, Samtaka verslunarinnar – FÍS, Verslunarráðs Íslands, Samtaka iðnaðarins, Landssambands íslenskra útvegsmanna, Samtaka fiskvinnslustöðva, Bændasamtakanna, Samtaka ferðaþjónustunnar, SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, Bandalags íslenskra listamanna og Samtaka íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja. Af opinberri hálfu sitja í nefndinni fulltrúi utanríkisráðherra, sem er formaður, og fulltrúar iðnaðar- og viðskiptaráðherra, landbúnaðarráðherra, menntamálaráðherra, samgönguráðherra og sjávarútvegsráðherra. Þá eiga sæti í nefndinni fulltrúar Byggðastofnunar, Ferðamálaráðs, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Iðntæknistofnunar. Utanríkisráðherra skipar í nefndina samkvæmt tilnefningu framangreindra aðila til þriggja ára í senn. Honum er jafnframt heimilt í reglugerð að veita öðrum samtökum eða stofnunum aðild að samráðsnefndinni að fenginni umsögn hennar.
    Fulltrúar samtaka úr atvinnulífinu í samráðsnefndinni velja fjóra aðalmenn og fjóra varamenn til setu í stjórn Útflutningsráðs.

II. KAFLI
Útflutningsráð Íslands.
2. gr.

    Útflutningsráð Íslands hefur það hlutverk að koma á auknu samstarfi fyrirtækja, hagsmunasamtaka og stjórnvalda í málum er lúta að eflingu útflutnings og veita útflytjendum og öðrum þeim er afla gjaldeyris á annan hátt alhliða þjónustu og ráðgjöf í því skyni að greiða fyrir og auka útflutning á vöru og þjónustu. Þá skal Útflutningsráð vera stjórnvöldum til ráðuneytis í málum sem varða markaðssókn og útflutningsaðstoð.

3. gr.

    Stjórn Útflutningsráðs skipuleggur og ákveður verkefni ráðsins. Stjórnin skal vera utanríkisráðherra til ráðuneytis um fyrirkomulag viðskiptaþjónustu á erlendum vettvangi og um áherslur í utanríkisviðskiptamálum.
    Stjórnina skipa sjö menn sem valdir eru til tveggja ára í senn. Utanríkisráðherra skipar fjóra stjórnarmenn eftir tilnefningu fulltrúa atvinnulífsins í samráðsnefnd, sbr. ákvæði 3. mgr. 1. gr., og þrjá stjórnarmenn án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum.

4. gr.

    Tekjur Útflutningsráðs eru:
     1.      Markaðsgjald, 0,05%, sem lagt er á gjaldstofn til greiðslu tryggingagjalds eins og hann er skilgreindur í III. kafla laga nr. 113/1990, um tryggingagjald. Um álagningu og innheimtu markaðsgjalds fer eftir ákvæðum þeirra laga. Markaðsgjald má draga frá tekjum þess rekstrarárs þegar stofn þess myndaðist.
     2.      Þóknun fyrir veitta þjónustu.
     3.      Sérstök framlög og aðrar tekjur.
    Útflutningsráði ber að stofna til samstarfs við þá aðila sem vinna að markaðssetningu á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta og skal ráðstafa 14% af tekjum af markaðsgjaldi til verkefna af þeim toga.

5. gr.

    Útflutningsráð skal veita íslenskum fyrirtækjum aðstoð við markaðssetningu á erlendum mörkuðum. Útflutningsráð getur enn fremur veitt opinberum aðilum þjónustu við markaðssókn fyrir einstakar atvinnugreinar á erlendum mörkuðum. Þá getur Útflutningsráð veitt fé til kaupa á þjónustu viðskiptafulltrúa í sendiráðum Íslands erlendis. Útflutningsráði er einnig heimilt að ráða eða styrkja menn til starfa erlendis í þágu þeirrar starfsemi sem ráðið sinnir.
    Útflutningsráð skal starfrækja skrifstofu sem annast öll dagleg störf og þau verkefni er stjórnin tekur ákvörðun um. Skrifstofan skal hafa sjálfstæðan fjárhag og reikningshald. Hún skal undanþegin opinberum gjöldum og sköttum til ríkissjóðs og sveitarfélaga. Stjórnin ræður framkvæmdastjóra og ákveður laun og önnur starfskjör hans. Framkvæmdastjóri ræður annað starfsfólk. Stjórnin ákveður gjaldskrá fyrir þjónustu skrifstofunnar. Þess skal gætt að útseld þjónusta standi að mestu leyti undir kostnaði við þau störf sem unnin eru samkvæmt beiðni einstakra útflytjenda.

6. gr.

    Utanríkisráðherra er heimilt, að fenginni umsögn stjórnar Útflutningsráðs, að kveða nánar á í reglugerð um starfsemi Útflutningsráðs og um verkaskiptingu milli þess og utanríkisráðuneytisins.

7. gr.

    Verði ekki annað ákveðið með lögum fellur markaðsgjald skv. 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga þessara niður frá og með 1. janúar 2008, þó þannig að álagning gjaldsins fari fram árið 2008 vegna gjaldstofns ársins 2007.

III. KAFLI
Gildistaka.
8. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2003. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 114/1990, um Útflutningsráð Íslands, með síðari breytingum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Af hálfu utanríkisráðuneytisins hefur á undanförnum mánuðum verið unnið að tillögum um endurskipulagningu fyrirkomulags aðstoðar við útflutningsviðskipti. Í þessari vinnu hefur verið tekið mið af stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá í maí 1999 þar sem lýst var því markmiði að áfram verði unnið að markaðssókn fyrir íslenskar vörur og þjónustu á erlendum mörkuðum og að efnt verði til samstarfs við erlend fyrirtæki og þjóðir og hvatt til fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi. Þá skyldi sameina eða samræma starfsemi þeirra opinberu aðila sem sinna alþjóðlegu kynningar- og markaðsstarfi fyrir íslenskt atvinnulíf, í þeim tilgangi að bæta þjónustu og auka skilvirkni.
    Allt frá því að utanríkisráðuneytið tók við málaflokki utanríkisviðskipta, árið 1987, hefur verið unnið að því innan utanríkisþjónustunnar að efla starf hennar að málefnum utanríkisviðskipta. Stórt skref í þá átt var stigið með stofnun Viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins árið 1997. Grundvallarþáttur í þeirri þjónustu er að efla starfsemi sendiráða í þágu íslensks atvinnulífs.
    Útflutningsráð Íslands hefur frá upphafi verið rekið sem hálfopinber stofnun með lögákveðinn gjaldstofn en hagsmunasamtök í atvinnulífi hafa haft meiri hluta stjórnar. Form Útflutningsráðs hefur lítið breyst frá upphafi. Í upphafi starfs Viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins kom fram gagnrýni á tvíverknað milli Viðskiptaþjónustunnar og Útflutningsráðs þar sem ekki væri ljóst hvert hlutverk hvorri stofnun um sig væri ætlað. Með lagabreytingum í árslok 1998 var leitast við að efla samráð stofnananna og bæta tengsl Útflutningsráðs við utanríkisráðuneytið. Markaðsgjaldinu, helsta tekjustofni Útflutningsráðs, var breytt á þann veg að í stað veltutengds gjalds var tekið upp gjald á tryggingagjaldsstofn sem lagt er á og innheimt með tryggingagjaldi. Gjaldtakan var með lögunum bundin við tvö ár og gert ráð fyrir endurskoðun að þeim tíma liðnum. Á haustþingi 2000 var gjaldtakan framlengd um önnur tvö ár, en án endurskoðunar laganna, og rennur lagaheimildin fyrir gjaldtökunni því út um næstu áramót.
    Niðurstaða þeirrar úttektar sem fram hefur farið er sú að verulegur árangur hafi orðið af starfi Viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins og Útflutningsráðs á undanförnum árum. Hins vegar þurfi að auka á formlegt samráð stjórnvalda og hagsmunasamtaka atvinnulífsins um útflutningsaðstoð. Fjölmargar opinberar stofnanir og ráðuneyti koma að aðstoð við útflutning. Þá láta mörg hagsmunasamtök í atvinnulífinu sig útflutningsmál varða. Við þær aðstæður skapast hætta á að starf opinberra aðila og einkaaðila að aðstoð við útflutningsstarfsemi verði ómarkvisst og að kröftum sé eytt í of afmörkuð verkefni, í stað þess að litið sé til uppbyggingar til lengri tíma og þess freistað að ná fram samstilltu átaki allra þeirra opinberu aðila sem að málunum koma. Mikilvægt er að tengja markaðsstarf ólíkra stofnana og samtaka fyrirtækja betur saman en áður. Þá er það niðurstaða utanríkisráðuneytisins að tengja megi sendiráð og ræðismenn betur markaðsstarfsemi Íslendinga á erlendri grundu. Í þeim tilgangi er gert ráð fyrir að sett verði á fót sérstök samráðsnefnd um útflutningsaðstoð og utanríkisviðskipti sem í sitji fulltrúar allra þeirra atvinnugreina er koma á einhvern hátt að útflutningsstarfsemi og gjaldeyrissköpun. Jafnframt eigi þau ráðuneyti er með þessa málaflokka fara fulltrúa í nefndinni. Gert er ráð fyrir að nefndin fjalli um áhersluatriði í útflutningsaðstoð svo að kraftar þeirra er vinna að útflutningsaðstoð nýtist sem best. Gert er ráð fyrir að þessi nefnd fundi ekki sjaldnar en fjórum sinnum á ári og að utanríkisráðherra stýri tveimur fundanna þar sem rætt yrði um áhersluatriði, sérstök átaksverkefni og samræmingu verkefna á sviði aðstoðar við útflutning.
    Jafnframt er gert ráð fyrir auknu samstarfi og bættri verkaskiptingu milli Útflutningsráðs og Viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins. Samkomulag er um það milli Útflutningsráðs og utanríkisráðuneytisins að settur verði á fót sérstakur stýrihópur sem hafi það verkefni að samræma starf Útflutningsráðs og Viðskiptaþjónustunnar til að tryggja betri nýtingu mannafla og koma í veg fyrir tvíverknað. Samkvæmt samkomulaginu getur Útflutningsráð jafnframt veitt fé til kaupa á þjónustu viðskiptafulltrúa í sendiráðum Íslands erlendis og endurselt til íslenskra fyrirtækja og stofnana. Þá getur stjórn Útflutningsráðs lagt fram fé af fjárhagsáætlun ráðsins í skilgreind samstarfsverkefni sem fara fram í tengslum við starf sendiskrifstofa Íslands erlendis. Með þessu móti er leitast við að einfalda boðleiðir og auðvelda útflutningsfyrirtækjum og opinberum aðilum að nýta sér þjónustu Viðskiptaþjónustunnar á erlendri grundu.
    Gert er ráð fyrir að kynning á Íslandi sem fjárfestingarkosti verði áfram ríkur þáttur í starfsemi utanríkisþjónustunnar á erlendum vettvangi í samráði við Fjárfestingarstofu og aðra viðeigandi aðila. Bæði orkusvið og almennt svið Fjárfestingarstofu heyri hins vegar stjórnskipulega áfram undir iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið og samstarfsaðila þess.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að stjórn Útflutningsráðs verði ráðgefandi fyrir utanríkisráðherra um málefni viðskiptaþjónustunnar, útflutningsaðstoð og um utanríkisviðskipti. Ætlunin er að utanríkisráðherra skipi þrjá fulltrúa í stjórn Útflutningsráðs í stað tveggja fulltrúa áður. Þá er gert ráð fyrir að markaðsgjaldið, hinn lögbundni tekjustofn Útflutningsráðs, verði framlengt til fimm ára, enda þörf á að gefa starfsemi ráðsins aukið svigrúm við þessar nýju aðstæður.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í greininni er kveðið á um stofnun samráðsnefndar atvinnulífs og stjórnvalda um utanríkisviðskipti og útflutningsaðstoð. Gert er ráð fyrir að nefndin sinni stefnumótun og skilgreini samvinnu- og átaksverkefni í útflutningsaðstoð og markaðssetningu og verði einnig vettvangur til samráðs og skoðanaskipta um markaðssetningu íslensks útflutnings á erlendum vettvangi. Samkvæmt gildandi lögum er til samráðsnefnd Útflutningsráðs. Heppilegra er talið að skilja samráðsnefndina frá Útflutningsráði og gera hana sjálfstæða til þess að freista þess að efla það samráð sem þar getur farið fram um samvinnuverkefni og átaksverkefni á sviði útflutningsaðstoðar. Fjölmörg ráðuneyti og opinberar stofnanir koma að eflingu útflutnings og gjaldeyrissköpunar. Mikilvægt er að starf þeirra sé samræmt sem kostur er til að nýta sem best þá fjármuni sem fara til útflutningsaðstoðar. Stofnun samráðsnefndarinnar á rætur að rekja til markmiða stjórnarsáttmálans um að sameina eða samræma starfsemi þeirra opinberu aðila sem sinna alþjóðlegu kynningar- og markaðsstarfi fyrir íslenskt atvinnulíf í þeim tilgangi að bæta þjónustu og auka skilvirkni.
    Gert er ráð fyrir að nefndin fundi ekki sjaldnar en fjórum sinnum á ári og að utanríkisráðherra stýri tveimur fundanna. Á þeim lykilfundum yrði fjallað um helstu áhersluatriði og átaksverkefni sem ráðast þurfi í.
    Aðild hagsmunasamtaka í atvinnulífi og aðild ráðuneyta að nefndinni er í flestum atriðum í samræmi við aðild að eldri samráðsnefnd Útflutningsráðs, að teknu tilliti til breytinga sem orðið hafa á heiti og verksviði hagsmunasamtaka í atvinnulífi á þeim fjórum árum sem liðin eru frá stofnun hennar. Þó er það nýmæli að gert er ráð fyrir að fulltrúar menntamálaráðherra og landbúnaðarráðherra bætist í samráðsnefndina, sem og fulltrúi Bandalags íslenskra listamanna. Gert ráð fyrir að fulltrúar atvinnulífsins í hinni nýju samráðsnefnd velji fulltrúa atvinnulífsins í stjórn Útflutningsráðs Íslands.

Um 2. gr.

    Greinin er efnislega óbreytt frá 1. gr. laga nr. 114/1990, um Útflutningsráð Íslands.

Um 3. gr.

    Greinin fjallar um stjórnarfyrirkomulag og hlutverk stjórnar Útflutningsráðs. Helsta nýmælið er að stjórninni er með skýrum hætti falið ráðgjafarhlutverk við utanríkisráðherra um fyrirkomulag viðskiptaþjónustu á erlendum vettvangi og um áherslur í utanríkisviðskiptamálum.

Um 4. gr.

    Greinin er efnislega óbreytt frá 3. gr. og 3. málsl. 1. gr. laga nr. 114/1990, um Útflutningsráð Íslands.

Um 5. gr.

    Fyrri málsgrein greinarinnar er að mestu ný. Í eldri lögum um Útflutningsráð Íslands voru lítil sem engin efnisákvæði um þau verkefni sem Útflutningsráði væri heimilt að veita fé til. Rétt þótti að breyta þessu til samræmis við breyttar áherslur í meðferð opinbers fjár og setja skýr heimildarákvæði um verkefni Útflutningsráðs. Eins og ráða má af greininni er Útflutningsráði skylt að veita íslenskum fyrirtækjum aðstoð á við markaðssetningu á erlendum mörkuðum, en heimilt að veita ýmsa tengda þjónustu. Hæst ber að Útflutningsráði er heimilað að veita opinberum aðilum þjónustu við markaðssókn fyrir einstakar atvinnugreinar á erlendum mörkuðum og að veita fé til kaupa á þjónustu viðskiptafulltrúa í sendiráðum Íslands erlendis sem síðan yrði til endursölu innan lands. Útflutningsráði er enn fremur heimilað að ráða eða styrkja menn til starfa erlendis í þágu þeirrar starfsemi sem ráðið sinnir.
    Síðari málsgrein greinarinnar er óbreytt að efni frá 7. gr. laga nr. 114/1990, um Útflutningsráð Íslands.

Um 6. gr.

    Greinin er óbreytt frá 9. gr. laga nr. 114/1990, um Útflutningsráð Íslands.

Um 7. gr.

    Í greininni felst að höfuðtekjustofn Útflutningsráðs, markaðsgjaldið, er framlengdur um fimm ár, til 1. janúar 2008.

Um 8. gr.

    Í greininni er kveðið á um gildistöku laganna 1. janúar 2003. Gert er ráð fyrir að ný samráðsnefnd skv. 1. gr. laganna verði skipuð strax eftir gildistöku. Ný stjórn Útflutningsráðs mun taka til starfa þegar tímabili sitjandi stjórnar lýkur, á ársfundi Útflutningsráðs vorið 2003.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um útflutningsaðstoð.

    Með frumvarpinu er lagt til að stofnuð verði samráðsnefnd atvinnulífsins og stjórnvalda um utanríkisviðskipti og útflutningsaðstoð. Samkvæmt gildandi lögum er starfandi samráðsnefnd Útflutningsráðs, en með frumvarpinu er lagt til að hlutverki hennar verði breytt og hún gerð sjálfstæðari. Nefndinni er ætlað að sinna stefnumótun og skilgreina samvinnu- og átaksverkefni í útflutningsaðstoð og markaðssetningu. Einnig er í frumvarpinu lagt til að fulltrúar menntamálaráðherra og landbúnaðarráðherra bætist í samráðsnefndina sem og fulltrúi frá Bandalagi íslenskra listamanna. Loks er lagt til að stjórn Útflutningsráðs verði falið það hlutverk að veita utanríkisráðherra ráðgjöf um fyrirkomulag viðskiptaþjónustu á erlendum vettvangi og að ráðherra skipi þrjá fulltrúa í stjórn ráðsins í stað tveggja áður.
    Með frumvarpinu er einnig lagt til að markaðsgjald, sem er tekjustofn Útflutningsráðs, verði framlengt um fimm ár til 1. janúar 2008. Áætlaðar tekjur af markaðsgjaldi samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2003 eru 237,7 m.kr. Verði frumvarpið að lögum falla úr gildi lög nr. 114/1990, um Útflutningsráð Íslands, með síðari breytingum. Ekki verður séð að frumvarpið hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð þar sem þegar hefur verið gert ráð fyrir tekjum á móti útgjöldum með markaðsgjaldinu.